HVER ER ÉG?

ÉG ER AUGA VINDSINS, OG EYRA ÞRUMUNAR, EN ÞIG SÉ ÉG EI NÉ HEYRI. ÉG ER LOGI ELDSINS OG BROTSJÓR HAFSINS. EN BÆNIR OG KVEINSTAFIR FINNA MIG EGI.

miðvikudagur, 3. febrúar 2016

"Slysið" eftir Guðmund Þórarinnsson

Hann var einn af sœvarins ungu sonum,
sem óttalaust barðist gegn hverjum voða,
með hjartað fullt af hamingju vonum,
en hrœddist þó ekki nokkurn boða.
Frjálshuga hetja með eldmóð í augum
og orkuna brennandi í sterkum taugum.
Einn af þeim dáðríku djörfu sveinum,
sem drengskaparmenn við bezta reynum.

Dauðanum þjónaði menning mannsins,
allt moraði af duflum á siglingaleiðum,
hetjunum fœrandi líkn til landsins,
var leitað af vörgum í manndrápsveiðum,
á þá var ráðizt úr lofti og af legi
af logandi grimmd á nótt og á degi,
svo jafnvel er skipi var komið í kafið,
var kunnáttu drápsins að fleka hafið.

Í þrjú ár hafði hann siglt yfir sœinn
í sókn gegn vigvéla drápgirni og brœði,
barizt sem ljón við beljandi œginn
við boðana hvæsandi og stormsins œði.
Oft var það geigvænt Atlantshafið,
œðandi fjallhátt bylgjutrafið.
í djúpunum leyndist dulinn voðinn,
drápfús og eltandi, verri en boðinn.

Alltaf með sœmd hafði fleyið hans flotið,
gegn flugvélum, kafbátum blindum af œði,
en stundum var nœrri skipi hans skotið,
skeyti öskrandi af drápsvon og brœði.
Hervélar æddu um lífanna að leita
í löngum að fá sinni morðfýsn að beita.
Sökkvandi skip mátti á sjónum eygja,
sundurtœtt flök með menn að deyja.

Við hverja raun óx hetjunnar hjarta
og hreystin og karlmennskan svall í blóði,
er hrannaðist um þá ógnin svarta,
efldist hver taug af styrk og móði.
Hans starf var til sveltandi lýða og landa,
að leita með bjargir og sigra vanda.
Hann helgaði líf sitt veglegu verki
og vann með sœmd undir Íslandsmerki.

Þó karlmennskan logi á bröttum bárum,
svo bjart sé um okkar hetjusveina,
margir vilja þeir sœrast sárum,
sumir fá aldrei bœtur meina.
Þrekið vantar að standast strauminn
og sterku orðin, sem toga í glauminn.
Sveinninn okkar sá ekki voðann,
sá ekki í gleðinni hœttuboðann.

II.

Hér hefst raunaleg sorgarsaga,
siglt var í land frá ógn og hörmum.
Heillandi var um heiða daga
heima í föður og móðurörmum.
Vinirnir komu, létt var lundin
lífið bjart og hlý hver stundin.
Kvöld eitt var sezt að sumbli í landi,
sem er svo margra drengja vandi.

Glaumurinn jókst og glösin skullu,
gamanið varð að svörum heitum.
ófrömum sveinum ópin gullu,
ögrandi hróp með hvössum skeytum.
Ef þú ekki meira þolir vinur,
já, þá ertu fjárans ári linur.
Ýtt var með þunga út í sukkið
og alltaf var meira og meira drukkið.

Kœtin varð áköf með œrslunum ljótum,
ýmsir lágu sem dauðir í valnum.
Sveinninn varð villtur og valtur á fótum,
vinirnir týndust í gleðisalnum.
Hann hugðist að fara, en hvert, það var gáta,
frá hrínandi sveinum, sem œpa og gráta,
svo skjögraði hann örmagna eitthvert strœti,
illa til reika með dauða kæti.

Að höfninni reikaði hann valtur og veikur,
vissi að þar mundi skipið sitt bíða.
Hann nísti og kvaldi hinn napri leikur,
nú varð hann ýmist að ganga eða skríða.
Vinirnir höfðu haft hann í glysið,
við höfnina skeði dauða slysið.
Á hafinu sigraði hann hœttu alla
hrapaði ráðlaus og varð svo að falla.

III.
Gleðilaus faðir og grátin móðir
geyma minning um unga soninn,
af örvœnting sárri eru hugirnir hljóðir,
horfin er fegursta bjartasta vonin.
Einu er fleira af óhöppum sorgar,
er sannar svo vel að Svarti dauðinn,
sízt skyldi vaxta þjóðarauðinn.

Á þinginu okkar er skeggrœtt og skrafað,
en skaðinn þessi er lítils metinn
og víst hafa sumir á dreggjunum drafað
og deilt eða stundað heima fletin.
Ef vininu á að víkja úr sœti,
vill hún réna þar sumra kæti.
Við skulum gera áfengt ölið,
það eitt getur lœknað drykkjubölið.

Ljóð: Guðmundur Þórarinnsson Eyrarbakka.
[Guðmundur Þórarinsson var kennari á Eyrarbakka, um 1950 sem og í forustusveit Ungmennafélags Eyrarbakka um hríð. Guðmundur er nú þekktastur fyrir söfnun örnefna í Eyrarbakkahreppi.]

Engin ummæli:

Skrifa ummæli