HVER ER ÉG?

ÉG ER AUGA VINDSINS, OG EYRA ÞRUMUNAR, EN ÞIG SÉ ÉG EI NÉ HEYRI. ÉG ER LOGI ELDSINS OG BROTSJÓR HAFSINS. EN BÆNIR OG KVEINSTAFIR FINNA MIG EGI.

þriðjudagur, 14. apríl 2015

Eljumaðurinn

Þú ríst úr þínu rúmi glaður
er roða slær um austurfjöll.
Þú ert hinn mikli eljumaður,
unz æfi þín er gengin öll.

Og þótt við heyrum aðra alla
sín æfa ráð um verka föll
þú lætur aldrei aldrei falla
úr æfðri hendi verkin snjöll.

Svo þegar önnur ljósin lýsa
og ljóma slær á nýja strönd,
í öðru lífi upp munt rísa
til æðra starfs með verk í hönd.

Þar verður gaman þig að finna,
að þrotnu lífi í meinahjúp,
og sjá þig áfram vaka og vinna

við visku og kærleiks ómæld djúp.

Bjarni Eggerts 1948

Sjóferðin

Aldan rís við himinn há,
hristir faxið bjarta.
Bárufáki bylur á,
ber þó ekki að kvarta.

 Drögum voð að hæsta hún.
 Háu boðagjóstin
 á að troða og öldubrún
 undir gnoðabrjóstin.

Þó að báran brött og há,
brotni fyrir stafni,
leggjum næstu öldu á
enn í Drottins nafni.

Treystum guði, gögnin hans
gjarnan munu duga.
Og í báru bröttum dans
bjartan sköpum huga.

Sakar ei um úfna dröfn,
þótt eitthvað sé í vegi.
ef vér náum heim í höfn

heilu lífi og fleyi.

Bjarni Eggerts 1948

mánudagur, 13. apríl 2015

Sveinar Sýslumanns

Svifu á Bakkann sveinar tveir,
frá sýslumanni,
Jón Snorrason Jötuns erði,
og Jóhannes frá Litla Gerði.

Segir fátt af ferðum þeirra,
félaganna,
uns þeir komu á Eyrarbakka,
og á hressing tóku að smakka.

Gerðisbóndinn gildur gjörði,
svörum ráða,
við búðarmann hann barkann stælti,
bráðhuga og þannig mælti:

Við erum komnir Vallarmenn,
og viljum hafa,
fyrir helgi á 14 hesta,
fengin skal og sortin bezta.

Brauð og sykur, brennivín,
og beztu rullu,
sjálfsagt vil ég sjálfur hafa,
sanngjörn finnst mér þessi krafa.

Búðarlokur beygðu háls,
 og bljúgir mæltu:
Sjálfir megið vöru velja,
 varla skal hér of dýrt selja.

Í sætabrauðs og sykurkassa,
 svo hann vendi,
og rullustykki rekja náði,
 og rommið ekki gjörforsmáði.

Tók hann nú að tala hátt,
 og teygja svíra,
berja í borð og bjóða í glímu,
 og belja gömlu Andrarímu.

Því aldrei kvað hann að sig,
 myndi aflið bresta,
hvorki vit né væna hreysti,
 viður fjandann sér hann treysti.

Því 18 djöfuls erki ára,
 ég átt við hefi,
 á Hólmsbergi í húðarslyddu,
 hvað ei myndi takast lyddu.

Og einu sinni sagði hann,
 í Selvogi,
 við sjóinn sá ég skrímsli standa,
 samt ég hvurgi hræddist fjanda.

Stórt það var sem stofuþil,
 og sterkt sem hvalur,
með hausa tvo og tíu lappir,
 tryllt það reif upp grjót og klappir.

Á mig réðist rammur fjandi,
en ráð ei skorti,
hausana af ég hjó með saxi,

 svo helvítið lá dauður laxi.

(Sigurður Ísleifsson)

laugardagur, 24. janúar 2015

Stokkseyrarkvæði

Blikuðu segl er byrinn þandi
brunaði fley, að grýttri strönd.
Hér voru menn, í leit að landi
lúnir mjög og svefnþurfandi,
er flúið höfðu fjarlæg lönd.

Sonur Atla sigldi fleyi
silfraði jökla dagsins ljós.
Og á fögrum drottins degi,
drengur rendi hafs af vegi,
kom til lands við Knararós.

Faldaði bylgjan björtu trafi
báran kysti suðurland,
brosti jörð við bláu hafi,
blessuð sólin geislastafi,
falla lét á fjöll og sand.

Er Hásteinn hér að landi lagði
Langskip braut við insta sker,
gekk á land með glöðu bragði
grœnar flatir leit og sagði:
„Fögur er sveitin sýnist mér".

Nam svo staðar byggði bæinn
batt svo tryggð við þessa jörð
Gott var landið grænn var haginn,
gnægð af fiski' er réri á sæinn
og hvergi sáust blásin börð.

Við náttúrunnar nægta brunna
nærðust dýr, og fólkið hans.
Aðrar leiðir lítið kunnar,
lika þaðan stoðir ruunar,
undir sæld hins mæta manns.

Hver sem gleymir gróðri jarðar
gengur blindur sína leið.
Landnemanna hendur harðar
héldu um pál, og reku, marðar,
þá í lófa sáran sveið.

Þróttlaust starf og augun opin
ekki fyrir tímum gleymt.
Vissu að þyrstum svalar sopinn
sáu að bergið meitlar dropinn
og í moldinni er gullið geymt.

Starfsins hönd og styrkur hugur
stritaði hér um þúsund ár.
Hjálpaði vilji, drengskaps dugur,
drottinn góður, almáttugur
gaf og tók, — og græddi sár.

Höfundur kvæðisins, Sigurður Ingimundarson

frá Stokkseyri.